Sóley Rós til vinstri, Árdís Eva og lengst til hægri er Lilja Hrund Jóhannsdóttir vinkona þeirra, kokkur og eigandi Sker restaurant í Ólafsvík. Ljósm. úr einkasafni.

Ung Dalakona stofnaði veisluþjónustuna Moon veitingar

Rætt við kokkana Sóleyju Rós og Árdísi Evu

 

Sóley Rós Þórðardóttir er dóttir þeirra Ingibjargar Jóhannsdóttur frá Ási í Laxárdal í Dölum og Þórðar Svavarssonar frá Búðardal á Skarðsströnd. Sóley fæddist heima í stofunni í Búðardal á Skarðsströnd. „Það er pínu fyndin saga því pabbi minn og báðir afar mínir fæddust í þessari sömu stofu. En ég var á mikilli hraðferð í heiminn,“ segir Sóley þegar Skessuhorn ræddi við hana í liðinni viku. Sóley ólst upp á Miðbrautinni í Búðardal þar sem hún gekk í grunnskóla. Eins og mörg ungmenni úti á landi þurfti hún að fullorðnast hratt og flytja að heiman aðeins 16 ára gömul til að fara í framhaldsskóla. Hún fór í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og bjó þar á heimavistinni. Hún tók eitt ár á almennri námsbraut áður en hún hélt til Reykjavíkur í kokkanám.

 

Moon veitingar

Í maí á þessu ári útskrifuðust þær vinkonur úr meistaranáminu og fóru í kjölfarið að huga að næstu skrefum. Þær ákváðu að taka annað sumar í veiðihúsi og fóru saman í veiðihúsið við Hítará. Þar ákváðu þær að fara saman í rekstur og stofnuðu Moon veitingar. „Við fórum bara mjög hægt af stað og byrjuðum á að opna Instagram fyrir fyrirtækið okkar, sjá hvernig gengi að fá fylgjendur. Við höfum mest verið að nota samfélagsmiðla til að koma okkur á framfæri en stefnum á að fara enn lengra og skoða að auglýsa okkur meira. Við tókum svo að okkur þrjú brúðkaup í sumar, reyndar allt brúðkaup í fjölskyldunni minni,“ segir Sóley og hlær. „Það gekk mjög vel og við erum núna búnar að vera að skipuleggja hvernig veisluþjónustu við ætlum að bjóða uppá,“ bætir hún við. „Það sem við erum helst að gera núna er að baka og selja vinsælar smákökur eins og sörur, lakkrístoppa og súkkulaðibitasmákökur fyrir jólin. Við leggjum mikið upp úr gæðum og að skila vörunni fallega frá okkur. Við notum alltaf hágæða hráefni og öskjurnar sem við notum undir kökurnar eru hannaðar af okkur og umhverfisvænar úr pappír og við skreytum þær sjálfar,“ segir Árdís. „Við viljum að þetta sé persónulegt og fallegt,“ bætir Sóley við og Árdís tekur undir það.

 

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir