Magnús Fjeldsted á kontórnum í N1 Borgarnesi.

Magnús ráðinn verslunarstjóri N1 í Borgarnesi

Magnús Fjeldsted tók nýverið við starfi verslunarstjóra N1 í Borgarnesi, stærstu vegasjoppu landsins. Magnús er 46 ára Borgfirðingur, búsettur í Borgarnesi, giftur Margréti Ástrósu Helgadóttur, börn þeirra eru þrjú og eitt barnabarn nýlega komið í heiminn. Hann er viðskiptafræðingur og bakari að mennt og hefur m.a. starfað við Arionbanka, í Geirabakaríi, við veiðivörslu og um tíma á Skessuhorni við útgáfu ferðablaðs. Aðspurður segist hann hlakka til að takast á við nýtt starf. „Það er mikið af góðu fólki sem vinnur hér á N1 í Borgarnesi. Fólk frá nokkrum löndum með fjölbreytta reynslu og frá mismunandi menningarheimum. Það verður gaman að kynnast þessu fólki og örugglega áhugavert.“ Aðspurður segir hann það markmið sitt og N1 að sjá til þess að viðskiptavinir fái bestu þjónustu sem hægt er að veita. „Hér ætlum við að skapa umhverfi þar sem viðskiptavinir finna að þeir séu velkomnir og að við séum hér til að þjónusta þá. Ég mun leggja metnað í að stöðin og umhverfi hennar verði í sem allra besta lagi, og hér verður starfsfólki uppálagt að vera meðvitað um þjónustuhlutverk sitt. Við munum bjóða því þjálfun svo þjónustan verði alltaf fyrsta flokks. Starfsfólki þarf alltaf að líða vel í vinnunni því það skynja viðskiptavinirnir.“

 

Réttur dagsins er minn réttur

Ekki verða gerðar miklar breytingar á þjónustuframboði í N1 í Borgarnesi til að byrja með, en þó leggur Magnús áherslu á að fylgst verður með tíðarandanum. Hann segir það markmið N1 að veita viðskiptavinum góða og snögga þjónustu og bjóða upp á sem breiðast vöruúrval. „Við ætlum einfaldlega að verða besti valkosturinn við hringveginn. Samkeppnin hér í Borgarnesi er mikil og er alltaf að aukast. Tækifæri N1 liggja því einkum í því að veita góða þjónustu á góðu verði. Við höfum og munum áfram leitast við að uppfæra vöruframboðið eftir tíðarandanum. Við erum með stærsta gólfflötinn og stærstu bílastæðin og getum þar af leiðandi tekið á móti stærri hópum en samkeppnisaðilarnir.“

Aðspurður í lokin um hvort hann eigi sér uppáhaldsrétt á matseðlinum svarar Magnús Fjeldsted: „Rikki kokkur er frábær og því er ómögulegt að velja. Réttur dagsins er minn réttur.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir