
Leitað hófanna í brunavörnum
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í síðustu viku voru til umfjöllunar erindi tveggja nágrannasveitarfélaga um samstarf í brunavörnum. Til kynningar voru drög að samningi Borgarbyggðar við Skorradalshrepp um brunavarnir í Skorradal. „Drögin eru ítarleg og mjög frábreytt núverandi samning,“ segir í fundargerð.
Byggðarráð lýsti yfir stuðningi sínum við að ljúka samningi á forsendum samningsins; „að því tilskyldu að ásættanleg niðurstaða fengist hvað varðar greiðslur Skorradalshrepps fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið kaupir af Borgarbyggð á þessu sviði.“
Á sama fundi var kynnt bréf Eyja- og Miklaholtshrepps frá 20. september sl. þar sem óskað er eftir viðræðum við Borgarbyggð um þjónustu Borgarbyggðar um brunavarnir í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra var falið að boða til fundar um málið og leiða viðræðurnar af hálfu Borgarbyggðar.