Mæðgurnar Olga Sædís Aðalsteinsdóttir (t.h.) og Elsa Fanney Grétarsdóttir. Ljósm. úr safni/ kgk.

Síðasti opnunardagur Kaffi Emils á föstudag

Síðasti opnunardagur Kaffi Emils í Grundarfirði verður næstkomandi föstudag, 25. október. Undanfarin þrjú og hálft ár hafa mæðgurnar Olga Sædís Aðalsteinsdóttir og Elsa Fanney Grétarsdóttir átt veg og vanda að rekstri kaffihússins, með aðstoð eiginmanna sinna, þeirra Grétars Höskuldssonar og Markúsar Inga Karlssonar. Blaðamaður hitti Olgu að máli síðastliðinn fimmtudag. Hún sagði að nú hefðu þrjú af fjórum snúið sér að öðrum verkefnum. Hún hafi rekið kaffihúsið áfram undanfarin misseri en tekið ákvörðun um að föstudagurinn 25. október yrði síðasti dagurinn sem opið verður á Kaffi Emil. „Þetta hefur gengið vel alla tíð og aðsóknin verið góð. Við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk og þetta hefur verið óskaplega skemmtilegt,“ segir Olga. „Alla tíð höfum við haft listaverk til sýnis og sölu og fallegt handverk eftir heimafólk, sem og haldið reglulega tónleika á kaffihúsinu. Þeirri stefnu héldum við alla tíð og erum stolt af því,“ bætir hún við.

Spurð hvað taki við kveðst hún auðvitað aðeins getað svarað fyrir sjálfa sig. Fjölskyldan rekur einnig María Apartments í Grundarfirði og hafa verið uppi hugmyndir um að bæta við annarri íbúð á neðri hæð hússins, eða öðru ferðatengdu, þar sem leigjandi að hluta neðri hæðarinnar er á förum. „Nú leggst ég undir feld og velti fyrir mér hver verða næstu skref hjá mér, en ég get lofað því 100% að það verður eitthvað ferðaþjónustutengt,“ segir Olga að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir