Ekið allt of hratt

Töluvert mikið af umferðamálum kom inn á borð Lögreglunnar á Vesturlandi undanfarna viku, bæði við almennt umferðareftirlit og eins í gegnum eftirlit með ómerktum myndavélabíl, sem og hraðamyndavélum. Hraðakstur er áfram mjög áberandi í umdæminu, að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Eitt grófasta dæmið um of hraðan akstur þessa vikuna kom upp að kvöldi þriðjudagsins 15. október, þegar ökumaður í Borgarnesi var stöðvaður á 70 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 30 km/klst. Auk þess reyndist viðkomandi ekki hafa ökuskírteini meðferðis. Að frádregnum vikmörkum hraðamælingarinnar var viðkomandi kærður fyrir að aka um fyrrnefndan kafla á 67 km/klst. Var hann sektaður um 100 þúsund krónur fyrir hraðakstursbrot og fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis, auk þess sem hann hlýtur þrjá punkta í ökuferilsskrá.

Þá segir lögregla allnokkra hafa verið sektaða fyrir að aka á milli 50 og 60 km/klst. þar sem hámarkshraði er 30 km/klst., en úti á þjóðvegi sé allt of algengt að stöðva ökumenn á milli 120 og 130 km/klst. hraða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir