Leggur til að rannsóknastarf fari frá Keldnaholti að Hvanneyri

Bjarni Jónsson varaþingmaður VG spurði í óundirbúnum fyrirspurnatíma menntamálaráðherra á mánudaginn um uppbyggingu háskólastigsins á öllu landinu. Hvatti hann ráðherra til að beita sér fyrir að rannsóknastarfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands, sem nú fer fram í Keldnaholti, verði flutt að Hvanneyri sem styrkja myndi stöðu skólans og fræðastarfs á staðnum. Jafnframt hvatti hann til að fjármögnun háskóla á landsbyggðinni yrði betur tryggð en nú er. „Óeðlilega lítið af starfsemi íslenskra háskóla hefur fengið að byggjast upp á landsbyggðinni og hefur skortur á fjármögnun þeirra ýtt undir þá öfugþróun. Í þessu sambandi er rétt að inna sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra eftir viðhorfi hennar og áformum vegna háskólanna á landsbyggðinni, háskólanna á Akureyri og Bifröst og landbúnaðarháskólanna á Hvanneyri og Hólum, þá ekki síst vegna áframhaldandi sjálfstæðis þeirra,“ sagði Bjarni.

Í svari Lilju D Alfreðsdóttur menntamálaráðherra kom meðal annars fram að Íslendingar eiga mjög öflugar háskólastofnanir úti á landi; Háskólann á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskólann á Akureyri. „Við erum að setja á laggirnar þekkingarsetur, við erum með samstarfsnet opinberra háskóla og svo er sérstaklega gerð grein fyrir stefnumörkun okkar í byggðaáætlun. Við höfum verið að styrkja sérstaklega rannsóknarstarf í Háskólanum á Hólum og við viljum halda áfram að efla það eins og við mögulega getum. Á árinu fengu til að mynda vísindamenn fiskeldisbrautarinnar á Hólum stóran styrk frá Rannís, svonefndan öndvegisstyrk, sem er auðvitað mikil viðurkenning fyrir öflugt rannsóknarstarf,“ sagði Lilja í svari sínu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir