Ljósleiðaranum komið fyrir í prammanum áður en siglt var yfir vatnið. Ljósm. Pétur Davíðsson.

Ljósleiðari dreginn yfir Skorradalsvatn

Lagning ljósleiðara um Skorradal er nú vel á veg komin, en verkið hófst vorið 2018. Búið er að tengja flesta bæi í sveitinni, auk nokkurra bæja í Andakíl. Sökum þess hve skógurinn er þéttur við veginn á móts við Stálpastaði var brugðið á það ráð að draga leiðarann yfir vatnið frá landamerkjum Haga og Vatnshorns. Var prammi fluttur á vatnið og samhliða ljósleiðaranum var sterkt tóg fest við glerþráðinn. Gekk verkið vel í blíðskaparveðri á föstudaginn. Komið var í land fyrir vestan bæinn á Háafelli. Nú verður hægt að leggja þráð í sumarhúsahverfið í Fitjahlíð og að Fitjum.

Að sögn Péturs Davíðssonar á Grund býðst öllum lögbýlum og eigendum sumarbústaða að tengjast lögninni. Töluvert er um að menn kaupi aðgang, einkum þó eigendur nýlegri og stærri sumarhúsa. Ekki er byrjað að leggja þráðinn um sjálf sumarhúsahverfin, en það verk hefst næsta sumar, að sögn Péturs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir