Grjótháls. Bærinn Grjót í Þverárhlíð fremst á mynd. Ljósm. úr safni/ Mats Wibe Lund.

Drög að matsáætlun fyrir vindmyllur á Grjóthálsi

Eins og greint var frá í síðasta Skessuhorni eru uppi áform um að reisa allt að sex vindmyllur á Grjóthálsi í Borgarfirði. Það eru eigendur jarðanna Hafþórsstaða í Norðurárdal og Sigmundarstaða í Þverárhlíð sem standa fyrir verkefninu. Nú hafa drög að matsáætlun fyrir vindmyllur á Grjóthálsi verið birt á vef VSÓ Ráðgjafar, www.vso.is, og verið send ýmsum hagsmunaaðilum til umsagnar. Næstu vikur gefst tækifæri á að koma athugasemdum á framfæri og ábendingum um hvernig verði staðið að mati á umhverfisáhrifum, segir í tilkynningu frá VSÓ Ráðgjöf.

Í tilkynningu vegna matsáætlunar fyrir verkefnið segir m.a. að aðgerðir í loftslagsmálum hafa stuðlað að örri framþróun í beislun vindorkunnar. „Tæknilegar framfarir geta gert minni verkefni eins og hér um ræðir hagkvæmari en áður. Til skoðunar eru nokkrir valkostir. Minnsti valkostur sem skoðaður verður er ein vindmylla á hvorri jörð, eða tvær alls. Stærsta útfærslan er 6 myllur alls með 85 metra turnhæð, en 150 metra hæð á oddi vængs þegar hann er í hæstu stöðu. Framleiðslugeta valkosta er á bilinu 9,8-30 MW. Til samanburðar eru önnur verkefni á Vesturlandi 24-35 vindmyllur hvert.“

Á síðastliðnum þremur árum hafa lauslegar athuganir verið gerðar og benda ýmsir þættir til að staðsetningin á Grjóthálsi geti hentað fyrir orkuframleiðslu af þessu tagi. „Þannig er mikill og jafn vindur á Grjóthálsi stærstan hluta ársins. Einnig er vegur upp hálsinn og háspennulínur með stálmöstrum. Er því bæði um þegar raskað svæði að ræða og ekki þarf að reisa háspennulínur til að flytja orkuna. Fjölmarga þætti þarf hins vegar að rannsaka svo meta megi hvort svæðið henti í raun og veru. Þar má nefna fuglalíf, yfirflug fugla, áhrif á náttúrufar, áhrif á aðra starfsemi og ásýnd. Slíkar rannsóknir eru tímafrekar en búast má við fyrstu niðurstöðum á næsta ári. Verði rannsóknarniðurstöður jákvæðar og verkefnið hagkvæmt, þurfa verkefni yfir 10 MW að metast í rammaáætlun, en óvíst er hvenær það yrði. Síðar í ferlinu reynir einnig á skipulagsþátt málsins og aðra leyfisveitendur eftir atvikum.“

Loks segir að helsta áhrifasvæði verkefnisins yrði Þverárhlíð og Norðurárdalur ofan Grábrókar. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í liðinni viku var haldinn óformlegur kynningarfundur fyrir íbúa fyrr í þessum mánuði og verða fleiri slíkir haldnir í Borgarbyggð á meðan matsferlinu stendur, samkvæmt tilkynningu VSÓ Ráðgjafar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir