Verkefnisstjóri í menningar- og byggðamálum

Sigursteinn Sigurðsson arkitekt hefur verið ráðinn í nýtt starf verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Sigursteinn hefur síðustu átta ár rekið arkitektastofuna Gjafa í Borgarnesi en auk þess starfaði hann að sérverkefnum fyrir SSV á árunum 2012 til 2014. Hann hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í ýmsum framfara- og samfélagsmálum í heimabyggð og á Vesturlandi, var m.a. einn af stofnendum Vitbrigða Vesturlands, sem eru samtök fólks í skapandi greinum, og hefur setið þar í stjórn. Þá hefur hann ásamt fleirum haldið utan um listahátíðina Plan-B Art Festival. Sigursteinn var valinn úr hópi rúmlega þrjátíu umsækjanda um starfið en Hagvangur hélt utan um ráðningarferlið fyrir hönd SSV.

Helstu verkefni nýs verkefnastjóra verður umsýsla um menningarmál í landshlutanum, þátttaka í byggðaþróunarverkefnum og eftirfylgni með Velferðarstefnu Vesturlands sem nýlega var samþykkt. „Starfið leggst alveg rosalega vel í mig. Ég er því fullur tilhlökkunar enda er þetta spennandi verkefni og að hluta til er verið að móta nýtt starf. Elísabet Haraldsdóttir sinnti áður menningarmálum í landshlutanum en hún hætti í sumar. Í nýja starfinu verður auk menningarmálanna eftirfylgni með nýrri velferðarstefnu fyrir Vesturland en sú vinna snýr m.a. að forvarnarstarfi, ungmennaráðum og ýmsum verkefnum á því sviði,“ segir Sigursteinn í samtali við Skessuhorn.

Hann hefur undanfarin ár rekið arkitektastofuna Gjafa í Borgarnesi. „Gjafi verður áfram til en ég mun ekki taka að mér nein stærri verkefni við hönnun. Verð í fullu starfi hjá SSV og með vinnuaðstöðu í stjórnsýsluhúsinu við Bjarnarbraut. Ég mun þó áfram grípa í einhver verkefni við hönnun, svona milli mjalta. Það verður því lúxus fyrir mig að geta kannski valið þau verkefni sem mér hentar samhliða fullu starfi við annað. Gjafi verður því áfram rekið sem fyrirtækjahótel, en ég hef leigt út skrifborð á skrifstofu minni sem áfram verður opin í tengibyggingunni við Borgarbraut 57 og 59 í Borgarnesi,“ segir Sigursteinn en hann byrjar í nýja starfi verkefnisstjóra hjá SSV 1. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir