Í fyrra á Vökudögum var Tinna Royal með sýninguna Glassúr en hún verður einnig með sýningu á hátíðinni í ár. Á myndinni er hún ásamt Bellu dóttur sinni og þær klæðast báðar kleinuhringjapeysum.

Vökudagar hefjast á Akranesi í næstu viku

Lista- og menningarhátíðin Vökudagar hefst á Akranesi fimmtudaginn 24. október og stendur fram á sunnudaginn 3. nóvember. Um er að ræða hátíð sem orðin er ómissandi hluti af menningarlífinu í bæjarfélaginu. Vel hefur gengið að skipuleggja hátíðina í ár, að sögn Fríðu Kristínar Magnúsdóttur, viðburðastjóra hjá Akraneskaupstað. Verður hátíðin í ár með nokkuð hefðbundum hætti. „Ég hef reyndar ekki komið að skipulagningu Vökudaga áður en miðað við dagskrána í fyrra verður þetta ekki ósvipað. Við verðum þó með glæsilega nýjung í ár sem er Heima-Skagi. Þar munu listamenn og hljómsveitir spila í heimahúsum á Akranesi föstudagskvöldið 1. nóvember,“ segir Fríða. „Svo verður þetta hefðbundna eins og sýningar á verkum leikskólabarna og fleira í þeim dúr,“ bætir hún við.

Fjölbreyttar sýningar

Meðal fleiri dagskrárliða nefnir Fríða Kristín að Jónína Björg Magnúsdóttir og Eðvarð Lárusson munu syngja dúett í keilusalnum, Erna Hafnes listakona verður með örsýningu á nýjum olíuverkum, en sýning hennar ber nafnið Góðir Íslendingar. „Leirbakaríið verður með sýningu sem ber nafnið Út um víðan völl og á Bókasafni Akraness veður fjölskyldustund með skólakór Grundaskóla undir leiðsögn Valgerðar Jónsdóttur. Hljómsveitin Gaddavír og Skullcrusher verða með tónleika í Þorpinu. Þetta eru ung þungarokkshljómsveit sem kom einnig fram á Írskum dögum í sumar og var mjög flott,“ segir Fríða. Sölvi Helgason verður á Café Kaju með fyrirlestur og Sóli Hólm verður með uppistand í Bíóhöllinni laugardagskvöldið 26. október. „Nemendur í 9. bekk í Brekkubæjarskóla hafa verið að vinna að verkefnum um loftlagsbreytingar út frá hugsjón Grétu Thunberg og verða þau með sýningu á þriðju hæð í Akranesvita. Þá verður Guðrún Jónína Magnúsdóttur einnig með sýningu þar sem ber nafnið Finndu mig í fjöru. Tinna Royal mun einnig verða með sýningu í Galleríi Bjarna Þórs auk þess sem sett verður upp farandssýningin Þetta vilja börnin sjá, á Bókasafni Akraness.“

Styrktartónleikar

Hljómsveitin Slitnir strengir verða með tónleika á Gamla Kaupfélaginu og Kór Akraneskirkju kemur fram í Frístundamiðstöðinni á Garðavöllum. Þá verða styrktartónleikar fyrir Skagastelpurnar Ester Eir og Ólavíu laugardaginn 26. október í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Þar munu koma fram Agnar Már Magnússon á píanó, Ari Bragi Kárason á trompet, Brynja Valdimarsdóttir syngur, Einar Scheving slær trommur og Haraldur Ægir Guðmundsson verður á kontrabassa. „Þetta verður fjölbreytt dagskrá og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það hefur verið gaman að skipuleggja hátíðina og ég er glöð með hvað fólk hefur tekið vel í þetta og hversu margir hafa átt frumkvæði að viðburðum. Þarna verður öll listaflóran og ég er viss um að þetta verði virkilega skemmtileg hátíð fyrir alla fjölskylduna,“ segir Fríða að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir