Baulárvallavatn. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Stykkishólmskirkja hyggst höfða dómsmál til að staðfesta eignarhald Baulárvalla

Sóknarnefnd Stykkishólmskirkju hefur ákveðið að höfða dómsmál til að staðfesta með óyggjandi hætti eignarhald kirkjunnar á jörðinni Baulárvöllum í Helgafellsveit. Jörðin hefur verið eign kirkjunnar allt frá 1883, samkvæmt þinglýstu gjafabréfi þar um. Í gjafabréfinu segir m.a. að hvorki megi gefa eða að selja landið frá Stykkishólmskirkju en gera það svo ábatasamt sem hægt er. Kirkjan hefur ekki nýtt jörðina með beinum hætti en um áratugi leigt Stykkishólmsbæ, áður Stykkishólmshreppi, hana til uppreksturs sauðfjár og þá hefur Veiðifélag Stykkishólms haft Baulárvallavatn á leigu til silungsveiða. Ríkið gerði kröfu í land Baulárvalla þegar Óbyggðanefnd fjallaði um hálendi og óbyggðar lendur á Snæfellsnesi. Í úrskurði nefndarinnar frá 15. ágúst síðastliðnum er þjóðlendukröfu í landið hafnað. Samkvæmt því stendur útmælingagjörð jarðarinnar óhögguð, en hún var gerð 15. ágúst árið 1823. Kærufrestur vegna niðurstöðu Óbyggðanefndar rennur út í febrúar næstkomandi og hefur sóknarnefnd ákveðið að taka að nýju upp málarekstur til að staðfesta eignarhald kirkjunnar. Sá málarekstur var hafinn áður en ríkislögmaður lýsti kröfu í jörðina. Stefndu kröfðust frávísunar á málinu þar sem Þjólendunefnd væri að störfum og var orðið við því.

Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir