Hátíðleg pólsk börn á Fjölmenningarhátíð í fyrra. Ljósm. úr safni/af

Fjölmenningarhátíð í Snæfellsbæ á sunnudaginn

Sunnudaginn 20. október verður Fjölmenningarhátíðin haldin í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík frá klukkan 14 til 16. Er þetta í fimmta sinn sem hátíðin er haldin en fram að þessu hefur hún verið haldin í Frystiklefanum í Rifi. Vegna þess hversu mikill fjöldi gesta hefur verið var ákveðið að færa hátíðina í stærra húsnæði í ár. Hátíðin er þannig sett upp að íbúar á svæðinu sem eiga uppruna í öðrum löndum koma með mat frá sínu heimalandi til að kynna fyrir fólki. Þá verða skemmtiatriði og kynningarbásar frá ýmsum félagasamtökum. Meðal skemmtiatriða verður stúlknabandið Mæk frá Grundarfirði sem ætlar að syngja fyrir gesti. Þá munu kórar úr Snæfellsbæ syngja nokkur lög og tveir ungir og efnilegir rapparar frá Snæfellsbæ, sem kalla sig Davidos and Juce boys, munu einnig skemmta gestum.

Rebekka Unnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Átthagastofu, segir hátíðna alltaf hafa fengið góðar viðtökur meðal íbúa en nú þegar hafa nokkrir skráð þátttöku sína. „Þeir skrá sig sem vilja koma með mat og þeir geta skráð sig fram að fimmtudegi fyrir hátið,“ segir Rebekka og bætir því við að allir séu hjartanlega velkomnir á hátíðina en aðgangseyrir er enginn. „Það hafa komið hópar frá um sjö löndum með mat á hátíðina og það verður vonandi svipað í ár. Stærsti hópurinn er frá Póllandi og hefur alltaf komið með stærsta hlaðborðið. Hátíðin er styrkt af Uppbyggingasjóði og geta þátttakendur fengið hráefniskostnað endurgreiddan, allt að 15 þúsund krónur,“ segir Rebekka. Markmiðið með hátíðinni er að kynna ólíka menningu fyrir öðrum íbúum Snæfellsbæjar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir