
Ung kona á Vesturlandi vann 124 milljónir – „Ég er nú barasta steinhissa“
Það var ung kona á Vesturlandi sem fékk draumasímtalið síðastliðinn mánudag þegar starfsmaður frá Íslenskri getspá hringdi í hana og tilkynnti henni um vinning sem hún hafði fengið á áskriftarmiðann sinn í EuroJackpot lottóinu. „Ég er nú bara alveg steinhissa,“ voru hennar fyrstu viðbrögð þegar henni var sagt að um væri að ræða vinning upp á rúmar 124 milljónir króna. Konan og eiginmaður hennar eru búin að vera með miðann í áskrift undanfarið, eina röð sem kostar 300 krónur á viku. Þau eru að vonum alsæl með vinninginn og það öryggi sem hann veitir þeim inn í framtíðina og ætla þau að þiggja fjármálaráðgjöf sem vinningshöfum sem vinna milljónavinninga stendur til boða.