Tveir í fangelsi fyrir fíkniefnaakstur

Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Vesturlands þriðjudaginn 15. október dæmdir til fangelsisvistar vegna aksturs undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna og fyrir akstur eftir að hafa verið sviptir ökuréttindum. Annar maðurinn var dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar en hinn í 60 daga fangelsi. Báðir voru þeir sviptir ökurétti ævilangt.

Of hratt, undir áhrifum og án réttinda

Öðrum manninum var manninum var gefið að sök að hafa sunnudaginn 28. júlí 2019 ekið bifreið, sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ólöglegra ávana- og fíkniefna um Vesturlandsveg við Bifröst. Í blóðsýni sem tekið var úr manninum greindist bæði amfetamín og THC, sem er virka vímuefni kannabiss. Enn fremur ók maðurinn á allt að 91 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km/klst. Ákærði játaði brot sín skýlaust, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms yfir manninum.

Í dómnum kemur einnig fram að frá árinu 2007 hafi maðurinn fimm sinnum verið dæmdur fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna og tvisvar sinnum gengist undir viðurlög hjá lögreglu. Síðast hlaut hann dóm fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna 10. maí á þessu ári. Þá var maðurinn dæmdur í 60 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt.

Með hliðsjón af ofangreindu þótti hæfileg hans þriggja mánaða fangelsisvist, auk þess sem dómurinn áréttaði ævilanga ökuleyfissviptingu mannsins. Honum var gert að greiða allan sakarkostnað og þóknun verjanda síns.

Með THC í blóðinu

Hinum manninum var gefið að sök að hafa laugardaginn 22. júní síðastliðinn ekið bifreið, sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna um Hraunbæ í Reykjavík, þar til lögregla stöðvaði för mannsins. Í blóðsýni mældist THC. Ákærði játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Fram kemur í dómnum yfir manninum að samkvæmt sakavottorði hafi maðurinn hlotið sex dóma frá árinu 2007. Við ákvörðun refsingar taldi dómstóllinn hún því hæfilega ákveðin fangelsi til 60 daga, auk þess sem maðurinn verði sviptur ökurétti ævilangt. Manninum var auk þess gert að greiða allan sakarkostnað og þóknun verjanda síns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir