Svipmynd úr leik Skallagríms og Snæfells í fyrra. Ljósm. úr safni.

Skallagrímur sóttir sigur í Stykkishólm í gær

Snæfell tók á móti Skallagrími í Vesturlandsslag í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær. Leikið var í Stykkishólmi. Skallagrímskonur höfðu betur og tóku stigin tvö og er þetta annar sigur liðsins í röð. Borgnesingar náðu snemma forystu í leiknum og gáfu hana ekki eftir og lokatölur 54-68 Skallagrímskonum í vil. Borgnesingar hoppa því upp í fimmta sæti deildarinnar eftir þrjár umferðir og Snæfell situr í því sjötta.

Keira Robinson var stigahæst í liði Skallagríms með 26 stig og níu fráköst, Emilie Hasseldal var næst með 14 stig og, 21 frákast og 6 stoðsendingar. Þá kom Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með níu stig og jafnmörg fráköst, Maja Michalska átti níu stig fimm fráköst, Árnína Lena Rúnarsdóttir átti fimm stig og Ingibjörg Rósa Jónsdóttir tvö. Í liði Snæfells var Chandler Smith stigahæst með 15 stig, 15 fráköst og þrjú varin skot. Emese Vida kom næst með 13 stig og níu fráköst. Þá var Gunnhildur Gunnarsdóttir með átta stig og sjö fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir með sjö stig og sex fráköst, Veera Annika Pirttinen með sex stig, Rebekka Rán Karlsdóttir með þrjú og Anna Soffía Lárusdóttir með tvö.

Næstu leikir liðanna eru á miðvikudaginn í næstu viku, 23. október, þegar KR kemur í Borgarnes og Snæfell sækir Grindavík heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir