
Laxveiði á Vesturlandi sú minnsta frá upphafi
Hafrannsóknastofnun hefur nú gefið út bráðabirgðatölur fyrir stangaveiddan lax sumarið 2019, en mikill samdráttur var í veiði á þessu ári. Veiðin nú á landsvísu var 16.500 löxum minni en á síðasta sumri.
Heildarfjöldi stangveiddra laxa var 28.800 fiskar, sem var sjöunda minnsta veiði sem skráð hefur verið frá árinu 1974 og sú minnsta frá 2000. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).
Mest varð minnkunin í veiði hér á vestanverðu landinu en aukning kom fram í ám á Norðausturlandi. Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 31. október.
Þurrkar og slakur hrygningarárgangur
Vísbendingar eru um að minni laxgengd á Vesturlandi megi að hluta til rekja til lítils hrygningarárgangs 2014. Sá árgangur hefur mælst liðfár í seiðamælingum, auk þess sem vorið 2018 var þar fremur kalt og votviðrasamt sem hafði neikvæð áhrif á seiðagöngur til sjávar. Hins vegar var vorið 2018 hlýtt á austanverðu landinu og gengu seiði þar úr fleiri en einum árgangi til sjávar.
Fjöldi seiða í ám á austanverðu landinu hefur almennt farið vaxandi í seiðamælingum og eru sterkar vísbendingar um að það megi rekja til aukinna sleppinga í stangveiði og þar með stærri hrygningarstofna. Afkoma laxa í sjó skiptir miklu máli varðandi endurheimtur og vísbendingar eru um að endurheimtur hafi verið með lægsta móti 2019 a.m.k. á Vesturlandi en nákvæmar upplýsingar um þann þátt liggja ekki fyrir enn sem komið er, að sögn starfsmanna Hafró.