Ánægð börn með gjafir sem þau fengu um síðustu jól.

Jól í skókassa til þess að gleðja börn í Úkraínu

Verkefnið Jól í skókassa á vegum KFUM og KFUK á Íslandi felst í því að gleðja börn í Úkraínu sem lifa við bágar aðstæður með jólagjöfum. Gjafirnar eru settar í skókassa og til að öll börnin fái svipaðar jólagjafir eru ákveðnir hlutir sem mælt er með að fari í hvern kassa. Gjafirnar eru sendar til Úkraínu en þar er atvinnuleysi mikið og margir sem búa við slæmar aðstæður og kröpp kjör. Að því er fram kemur á heimasíðu KFUM og KFUK eru íslensku skókössunum meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við mikla fátækt.

Allir sem vilja geta tekið þátt í verkefninu og hafa undirtektirnar verið frábærar frá því fyrst var farið af stað með verkefnið hér á landi árið 2004. Tekið verður á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 í Reykjavík alla virka daga milli klukkan 9:00 og 17:00 til 9. nóvember næstkomandi. Fyrir þá sem búa á landsbyggðinni er hægt að nálgast upplýsingar um móttökustaði á heimasíðu KFUM og KFUK undir „Móttökustaðir“. Þá er þar einnig að finna allar upplýsingar um hvernig skuli ganga frá kössunum og hvað skuli setja í þá. Mælt er með vettlingum, sokkum, húfum, treflum, nærfötum, peysum, bolum, tannbursta, tannkremi og fleiru.

Eftirtaldir eru móttökustaðir KFUM og K á Vesturlandi:

Akranes:

  1. október – 1. nóvember verður tekið á móti skókössum í Safnaðarheimili Akraneskirkju á milli klukkan 10 – 16. Tengiliður er Axel Gústafsson, sem einnig tekur við gjöfunum í Axelsbúð. Hann hefur síma 896-1979.

Grundarfjörður:

Tekið verður á móti skókössum í Safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju. Tengiliðir er Anna Husgaard Andreasen í síma: 663-0159 og Salbjörg Sigríður Nóadóttir í síma: 896-6650.

Stykkishólmur:

Tekið verður á móti skókössum í Stykkishólmskirkju mánudaginn 4. nóvember frá kl. 16 – 18. Tengiliðir eru Ásdís Herrý Ásmundsdóttir í síma: 866-1932 og Kristín Rós Jóhannesdóttir í síma: 893-1558.

Líkar þetta

Fleiri fréttir