Fjöldi nýrra fulltrúa sækir landsfund VG nú um helgina

Hátt í þrjúhundruð VG félagar hafa nú skráð sig á landsfund Vinstri grænna sem stendur á Grand Hótel alla helgina (18. – 20. október). Blásið er til leiks klukkan fjögur á föstudag, en þá verða kynntar skýrslur og ársreikningur hreyfingarinnar. Sérstakar móttökur á fundinum fá nýir landsfundarfulltrúar, en að þessu sinni mæta á fundinn á annað hundrað félagar sem ekki voru með á síðasta landsfundi.  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flytur ræðu sína klukkan 17.30.

45 ályktanir um allt milli himins og jarðar liggja fyrir fundinum, auk þess sem afgreiddar verða  nýjar eða uppfærðar stefnur í nokkrum stórum málaflokkum.  Málefnahópar um nýsköpun, samgöngur, kjaramál, matvælastefnu, umhverfi, heilbrigði, svo eitthvað sé nefnt starfa á fundinum.

Gestir úr ýmsum áttum koma á fundinn og lesa VG pistilinn um Vinstri grænni pólitík til framtíðar.  Þessir óvæntu gestir brjóta upp dagskrána með örerindum bæði á laugardag og sunnudag, um brýn samfélagsmál í ljósi vinstri og grænnar stefnu.

Ný stjórn VG

Á laugardag verður kosið í stjórn, fyrst í embætti, formanns, varaformanns, ritara og gjaldkera og síðan sjö meðstjórnendur og fjórir varamenn. Mikill áhugi er á þátttöku í stjórn VG og hefur þegar borist allnokkur fjöldi framboða, þótt frestur til að bjóða sig fram renni ekki út fyrr en á fundinum sjálfum. Á sunnudag verða kosnir 40 fulltrúar í flokksráð og hefð er fyrir því að framboð þangað komi fram á landsfundi eftir að kosið hefur verið í stjórn.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir