Horft að Reykhólum. Ljósm. úr safni/ mm.

Sveitarstjórn staðfesti Teigsskógarleið

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum síðdegis í gær breytingu á aðalskipulagi hreppsins sem felur í sér að Vestfjarðavegur verði lagður eftir svokallaðri Þ-H leið. Felur hún í sér veg um Teigsskóg og þverun þriggja fjarða; Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Meirihluti sveitarstjórnar lagði fram þriggja síðna rökstuðning með ákvörðun sinni. Þar lýsir meirihlutinn því að hann telji sveitarfélagið hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína í undirbúningi ákvörðunarinnar. Brýn þörf sé á samgöngubótum, en sveitarfélaginu sé óheimilt að leggja fram valkost R, eins og skipulagsnefnd hafði lagt til, þar sem umferðaröryggi hennar hafi verið metið minna en annarra leiða í umferðaröryggismati Vegagerðarinnar. Þá hafi sveitarfélagið við vinnu sína fengið skýr svör þess efnis að ekki yrði unnt að bæta við 4-6 milljörðum við þá fjárveitingu sem þegar liggur fyrir í Vestfjarðaveg. „Því er það niðurstaða að hagsmunir samfélagsins vegna bættra samgangna séu meiri en þau neikvæðu umhverfisáhrif sem þau hafi í för með sér,“ segir í rökstuðningi meirihlutans með ákvörðun sinni.

Tryggvi Harðarson sveitarstjóri segir í samtali við Skessuhorni að nú fari aðkomu sveitarfélagsins að málinu senn að ljúka. Þegar skipulagið hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun mun Vegagerðin sækja um framkvæmdaleyfi og hafa forsvarsmenn hennar gefið það út út að þeir vonist til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Tryggvi segir að sveitarfélagið hyggist afgreiða umsókn um framkvæmdaleyfi eins fljótt og auðið er. Þar með verður þeim þáttum málsins sem snúa að sveitarfélaginu lokið. Tryggvi bætir þó við að nokkrir aðilar hafi boðað að þeir muni kæra framkvæmdaleyfið þegar það hefur verið gefið út. Verði framkvæmdaleyfið kært fær málið sinn farveg fyrir dómstólum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir