Terra er nýtt nafn Gámaþjónustunnar

Nafni Gámaþjónustunnar var breytt mánudaginn 7. október síðastliðinn. Gengur fyrirtækið nú undir nafninu Terra. „Terra er latneskt heiti jarðargyðjunnar og eitt af nöfnum plánetunnar sem er heimkynni okkar allra og vel á við, enda snýr allt okkar starf að bættri umgengni við jörðina,“ segir um nafnabreytinguna á vef fyrirtækisins. Samhliða nýju nafni var nýtt merki félagsins kynnt til sögunnar. „Það byggir á hringformi sem vísar til jarðarinnar, en einnig birtist í merkinu spírað fræ, tákn sjálfbærni og endurnýjunar til framtíðar.“

Terra skilgreinir sig sem fyrirtæki í umhverfisþjónustu og býður sem fyrr upp á lausnir  til að safna og flokka úrgang og endurvinnsluefni auk þess að koma þeim efnum í réttan farveg. Með viðskiptavinum er unnið að því að flokka sem mest og jafnframt hvetur fyrirtækið til minni notkunar umbúða og efna sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar. Markmið Terra er að skilja ekkert eftir, að því er fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir