Eva Björg gaf út sína fyrstu bók vorið 2018 og hlaut mikið lof fyrir. Núna hefur hún gefið út bókina Stelpur sem ljúga. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Stelpur sem ljúga er önnur spennusaga Evu Bjargar

Bókin Stelpur sem ljúga kom út nýverið en það er önnur bók Skagakonunnar Evu Bjargar Ægisdóttur. Eva Björg gaf út sína fyrstu bók vorið 2018, bókina Marrið í stiganum. Fékk hún mikið lof fyrir þá bók sem sat lengi vel í efstu sætum á metsölulistum. Þá hlaut hún einnig glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn, verðlaun sem rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónsson stofnuðu til í samvinnu við Veröld. Marrið í stiganum gerist á Akranesi, þar sem Eva Björg ólst upp, og heldur hún áfram að nota Vesturland sem sögusvið í nýju bókinni.

Stelpur sem ljúga er um einstæða móður sem hverfur af heimili sínu en skilur eftir skilaboð á eldhússborðinu fyrir 15 ára dóttur sína. Þá er talið víst að hún hafi fyrirfarið sér en lík hennar finnst svo illa farið í Grábrókarhrauni í Norðurárdal sjö mánuðum síðar og stendur lögreglan þá frammi fyrir flókinni morðgátu. Á sama tíma er sögð saga af nýbakaðri móður á fæðingadeild sem hefur óbeit af barninu. „Stelpur sem ljúga er grípandi og mögnuð spennusaga um það hvernig brotin æska og áföll geta leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni,“ segir í umfjöllun um bókina á vefsíðu Forlagsins.

Þess má geta að í dag klukkan 17-19 mun Eva Björg verða í Eymundsson á Akranesi og kynna og árita bókina á útgáfufagnaði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir