Kirkjufellsfoss. Ljósm. ág.

Samstarf um framkvæmdir við Kirkjufellsfoss

Eins og kunnugt er hafa staðið yfir framkvæmdir við nýjan áningarstað við Kirkjufellsfoss í Grundarfirði á þessu ári, bílastæðin þar voru malbikuð í lok ágúst. Stöðu málsins og vegtengingu við nýja áningarstaðinn kynnti Björg Ágústsdóttir á Facebook síðu Grundarfjarðar í dag, fyrir hönd bæjarfélagsins, Vegagerðarinnar og landeigenda.

Þar kemur fram að Kirkjufellslandið er í einkaeigu, en Grundarfjarðarbær fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að fjármagna endurbætur og framkvæmdir við nýja áningarstaðinn. „Fyrsti áfanginn fólst í að gera stærra bílastæði, á nýjum stað, vestan við fossinn, og aðkomuveg frá þjóðvegi að stæðinu. Í ágúst á þessu ári var nýja bílaplanið malbikað en það er um 2.900 fermetrar að flatarmáli, ætlað fyrir minni bíla og rútur. Næsti áfangi felst í að endurbæta göngustíga á svæðinu, frá bílaplani og austur fyrir fossinn, þar sem stígur verður breikkaður, settar tröppur í hann og gengið betur frá öllum umbúnaði stígs og afmörkun frá brekkubrún að fossi. Auk þess á að setja upp nýjar merkingar og upplýsingaskilti á svæðinu. Gamla bílastæðið verður síðar aflagt og sömuleiðis verður göngustígur vestan megin við fossinn afmáður,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að síðan í sumar hafi landeigendur, Grundarfjarðarbær og Vegagerðin, einnig með aðkomu lögreglunnar á Vesturlandi, átt í samstarfi um hvernig umferðaröryggi verði sem best tryggt á svæðinu, þá aðallega á og við þjóðveg 54. „Vegagerðin hafði málið á sinni könnu og hefur nú ákveðið að hefja framkvæmdir við að taka niður og lækka þjóðveginn í brekkunni, austan við aðkomuveginn að nýja stæðinu. Það þýðir að blindhæðin sem þarna er mun hverfa við lækkun vegarins. Vegagerðin er langt komin með að hanna þessa útfærslu og mun í beinu framhaldi hefja verkframkvæmdir. Það ætti því ekki að líða langur tími þar til blindhæðin í Kirkjufellsbrekkunni heyrir sögunni til.“

Jafnframt segir að landeigendur, Grundarfjarðarbær og Vegagerðin séu sammála um að þetta sé sú lausn sem auki umferðaröryggi til mestra muna og að með þessu sé horft til framtíðarhagsmuna á svæðinu. Þegar framkvæmd við þjóðveginn lýkur og nýja bílastæðið verður komið í gagnið, verður núverandi bílastæði aflagt, en það var útbúið sumarið 2014.

Nýju bílastæðin við áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss voru malbikuð síðla í ágúst. Ljósm. tfk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir