ÍA og fleiri íþróttahreyfingar fá nú aðild að UMFÍ

Íþróttabandalag Akraness, ásamt Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþróttabandalagi Akureyrar, hafa nú fengið fulla aðild að Ungmennafélagi Íslands, UMFÍ. Þetta var samþykkt nær samhljóða á sambandsþingi UMFÍ sem fram fór á Laugarbakka í Miðfirði um helgina. Með aðild þessara félaga verða flest stóru íþróttafélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem heyra undir ÍBR hluti af UMFÍ, ásamt ÍA á Akranesi, Þór og KA á Akureyri og 29 héraðssamböndum um land allt. Ungmennafélag Íslands er landssamband ungmennafélaga, var stofnað á Þingvöllum 2. ágúst 1907. Innan UMFÍ voru fyrir þessa sameiningu 340 starfandi félög og félagsmenn rúmlega 160 þúsund.

Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að málið hafi verið til umræðu í hreyfingunni í tvo áratugi. Íþróttabandalögin þrjú fái nú stöðu sambandsaðila innan UMFÍ, sem margfaldast við það í stærð. Að mati stjórnenda UMFÍ verður hreyfingin öflugri við þessi nýju félög. „Nú getum við sameinað krafta okkar og orðið öflugri samtök en áður,“ sagði Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, í tilkynningu frá félaginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir