Brynja SH kemur að landi eftir makrílveiðiróður frá Ólafsvík haustið 2017. Ljósm. úr safni.

Ógilda millifærslur í makríl

Fiskistofa hefur synjað fjölmörgum beiðnum um millifærslu í markíl, þar sem jöfn skipti á makríl og bolfiski koma við sögu. „Stofnunin telur að flutningur sé óheimill þegar útgerð krókaaflamarksbáts sem hefur makrílheimildir í A-flokki hyggst láta af hendi heimildir í bolfiski í krókaaflamarki í skiptum fyrir makríl til aflamarksskips, sem býr yfir makrílheimildum í B-flokki,“ segir á vef Fiskistofu.

Í frétt Fiskifrétta frá 3. október segir hins vegar að þessi túlkun Fiskistofu stangist á við fyrri túlkun hennar á reglunum. „Sem varð til þess að sannkölluð hringekja með makrílheimildir fór af stað, þar sem makrílheimildir voru fluttar fram og aftur milli skipa í skiptum fyrir bolfisk. þannig gátu fyrirtæki nýtt sér þetta til að flytja bolfiskheimildir úr krókaaflamarki upp í aflamarkskerfið,“ segir í frétt Fiskifrétta. „Atvinnuvegaráðuneytið komst þann 20. september að þeirri niðurstöðu að þessar millifærslur hafi verið ólögmætar og sendi Fiskustofu leiðbeiningar um framkvæmd laganna,“ segir á vef Fiskifrétta.

Þar er jafnframt haft eftir Þorsteini Hilmarssyni, sviðsstjóra hjá Fiskstofu, að taka þurfi í kringum 400 millifærslur á aflaheimildum til endurskoðunar. Fiskistofa hafði þá til skoðunar fjölmargar óafgreiddar og óstaðfestar beiðnir um millifærslur í makríl sem taka átti afstöðu til dagana á eftir.

Landssamband smábátasjómanna hefur gagnrýnt harðlega þessa framkvæmd regluverksins. Axel Helgason, formaður LS, segir Fiskistofu bera ábyrgð á útkomunni. „Það var Fiskistofa sem ákvað að hleypa krókaaflamarksbát upp í A-flokk í markílnum. Þar með fór þetta af stað,“ er haft eftir Axel í frétt Fiskifrétta. Hann telur að nálægt 50 þúsund tonn hafi verið millifærð með þessum hætti, sem í reynd eru tæp 25 þúsund tonn, þar sem hver færsla telst tvisvar þegar heimild er flutt af einum báti til annars.

Smábátasjómenn höfðu síðan margir hverjir einnig nýtt sér heimildir í reglunum til að leigja frá sér óveiddan kvóta. „Menn þurftu í raun og veru ekki að veiða sínar heimildir, upphafsúthlutunina. Menn gátu fengið í viku hverri úthlutað 35 tonnum úr viðbótarpottinum án þess að þurfa að hreyfa við sínu úthlutaða aflamagni. Síðan núna í lok vertíðar gátu þeir framleigt allan sinn afla til stórútgerðarinnar sem í sumum tilvikum voru heimildir úr viðbótarpottinum sem átti að vera óheimilt að framleigja,“ segir Axel. Hann tekur telur þó engu að síður jákvætt að smábátasjómenn fái tækifæri til að framleigja óveiddar heimildir sínar til stórútgerðarinnar í lok vertíðar. Framkvæmdin hafi hins vegar ekki verið í samræmi við það sem lagt var upp með í upphafi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir