Meirihluti skipulagsnefndar leggst gegn Teigsskógarleið

Skipulags-, hafnar- og húsnæðisnefnd Reykhólahrepps fjallaði um aðalskipulagsbreytingu vegna Vestfjarðavegar á fundi sínum á miðvikudag. Þar var farið yfir drög að svörum við umsögnum og athugasemdum við tillögu að breyttu skipulagi. Minnihluti nefndarinnar taldi að brugðist hefði verið við öllum athugasemdum og lagði til að tillögunni yrði vísað til samþykktar í sveitarstjórn. Meirihluti nefndarinnar lagði hins vegar til að fallið yrði frá því að setja Þ-H leið um Teigsskóg á aðalskipulag hreppsins. „Þess í stað verði niðurstöðum valkostagreiningar Viaplans fylgt og farin leið sem tengir Reykhólaþorpið við Vestfjarðaveg 60,“ segir í bókun meirihlutans, þeirra Ingimars Ingimarssonar og Karls Kristjánssonar. Auk þeirra situr Jóhanna Ösp Einarsdóttir í nefndinni.

Í greinagerð með tillögu meirihlutans er m.a. bent á að leið um Teigsskóg hafi tvívegis farið í umhverfismat og í bæði skiptin hafi Skipulagsstofnun lagt til að farin verði önnur leið, vegna neikvæðra áhrifa á skóginn og firðina sem á að þvera. Sömuleiðis segir í greinagerðinni að ekki hafi verið gerð kostnaðar- eða ábatagreining eða félagshagfræðileg greining vegna framkvæmda, engin tilraun verið gerð til að verðmeta land sem nýtur sérstakrar verndar, né kostnaðarmeta samfélagslegan og byggðalegan ávinning af því að koma þorpinu að Reykhólum í alfaraleið. Kostnaðarútreikningar snúi aðeins að stofnkostnaði framkvæmdarinnar. Þá eru einnig rifjaðar upp bókanir sveitarstjórnar frá 22. janúar, þar sem kjörnir fulltrúar lýstu því að þeir teldu sig hafa verið beitta óeðlilegum þrýstingi af hálfu Vegagerðarinnar við ákvarðanatöku sína: „Ljóst er af þessum bókunum að voldug ríkisstofnun með stjórnkerfið og fjárveitingarvaldið á bak við sig hefur beitt stöðu sinni þannig að kjörnir fulltrúar telja sig ekki geta gætt hagsmuna umhverfis og samfélags í Reykhólahreppi með eðlilegum hætti,“ segir í greinagerð meirihlutans.

Í niðurstöðukafla greinagerðarinnar segir meirihlutinn að engin þörf sé á að setja Teigsskógarleið inn á aðalskipulag Reykhólahrepps. Þar njóti nánast hver einasti metri sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Segir meirihlutinn fráleitt að brýn nauðsyn sé fyrir því að fara með veg um Teigsskóg og vísar til þess að Reykhólaleið R hafi komið best út úr valkostagreiningu. Á heildina litið fyrir tæknilega, skipulagslega, umhverfislega og félagslega þætti sýni sú leið betri niðurstöðu en hinir þrír valkostirnir sem þar voru teknir til skoðunar. „Það er því engin brýn nauðsyn fyrir Teigskógarleið, það er hins vegar brýn nauðsyn fyrir þorpið á Reykhólum og Reykhólahrepp allan að farin verði R-leið,“ segir í greinagerð meirihlutans. Sömuleiðis er vísað í niðurstöðu valkostagreiningar Viaplans, sem mat A3 leið Vegagerðar og Þ-H leið sambærilegar m.t.t. umferðaröryggis.

Afgreiðsla skipulags-, hafnar- og húsnæðisnefndar Reykhólahrepps á málinu verður tekin til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps næstkomandi þriðjudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir