
Lagt til að stjórn MB verði skipuð sex aðalfulltrúum
Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær var samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta sveitarstjórnar tillaga þess efnis að stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. verði framvegis skipuð sex aðilum, fimm frá Borgarbyggð (sem á 92% hlutafjár) og einum frá öðrum hluthöfum (8%) og jafn mörgum varamönnum kjörnum á aðalfundi. Kjörtímabil stjórnar verður það sama og sveitarstjórnar. Þar sem stjórn MB verður skipuð sex fulltrúum mun formaður stjórnar hafa tvöfalt atkvæðavægi falli atkvæði jafnt. Í hádeginu í dag fer fram boðaður hluthafafundur í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem þessar tillögur verða afgreiddar. Samþykkti sveitarstjórn að fulltrúi Borgarbyggðar leggi á þeim fundi til að stjórnarkjöri Menntaskóla Borgarfjarðar verði frestað og fari fram á auka aðalfundi Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. Þá er farið fram á að stjórn menntaskólans boði auka aðalfund með eðlilegum fyrirvara, eins fljótt og unnt er, og að fundarefni þess fundar verði stjórnarkjör og önnur mál.
Þá var einnig á fundi sveitarstjórnar í gær samþykkt tilnefning nýrra stjórnarmanna f.h. Borgarbyggðar í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar. Þeir verða:
Inga Dóra Halldórsdóttir (formaður) – Sólveig Heiða Úlfsdóttir til vara.
Flosi Hrafn Sigurðsson – Eyjólfur Vilberg Gunnarsson til vara.
Helena Guttormsdóttir (varaformaður) – Álfheiður Marínósdóttir til vara.
Helgi Haukur Hauksson – Bergur Þorgeirsson til vara.
Hrefna B. Jónsdóttir – Sveinbjörn Eyjólfsson til vara.
Aðrir hluthafafar í Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. kjósa svo sinn fulltrúa í nýja sex manna stjórn skólans.