Fulltrúar Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar á tali við formann sinn, Sigurð Inga Jóhannsson. F.v. Orri Jónsson, Finnbogi Leifsson, Guðveig Eyglóardóttir, Davíð Sigurðsson og Sigurður Ingi. Ljósm. úr safni/ád.

Hafna alfarið hugmyndum um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs

Undirbúningur að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs hefur staðið yfir undanfarin tvö ár og þeirri vinnu verið stýrt af þverpólitískri nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í apríl 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nefndinni er m.a. ætlað að skilgreina mörk væntanlegs Miðhálendisþjóðgarðs og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka. Þá er nefndinni ætlað að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og lagafrumvarpi um hann, þar sem m.a. er tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins. Loks skal nefndin setja fram áætlun um fjármögnun fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Andstaða landstórra sveitarfélaga

Hugmyndir um Miðhálendisþjóðgarð hafa mætt skilningi víða en vissulega einnig mætt andstöðu. Andstaða er ekki síst í ljósi þess að sveitarfélög muni þurfa að afsala sér skipulagslegu forræði yfir landssvæðum um leið og þau leggja land undir þjóðgarð. Mörg sveitarfélög, auk t.d. orkufyrirtækja, hafa lýst andstöðu sinni með tillögurnar. Hefur til dæmis sveitarstjóri Bláskógabyggðar bent á að skort hafi á samráð við sveitarstjórnir um málið og leggst sveitarfélagið gegn hugmyndunum. Húnvetningar hafa sömuleiðis þvertekið fyrir slíkt afsal lands og skipulagsforræðis. En Húnvetningum og Sunnlendingum barst liðsauki í gær þegar Davíðs Sigurðsson sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð, fyrir hönd fjögurra fulltrúa Framsóknarflokks í sveitarstjórn, lagði fram bókun á fundi sveitarstjórnar. Í henni er formlega lýst andstöðu við stofnun Miðhálendisþjóðgarðs á hálendi Borgarfjarðar.

Hafna því að leggja land undir

Ályktunin er svohljóðandi: „Fulltrúar Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar hafna alfarið hugmyndum umhverfisráðherra um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs. Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið á fundum ráðherra um málið, ásamt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í samráðsgátt Alþingis, eru til þess fallnar að hefta atvinnustarfsemi á miðhálendinu, skerða ákvörðunarvald og rétt sveitarfélaga og íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum. Jafnframt munu fulltrúar Framsóknar hafna öllum hugmyndum um að leggja land Borgarbyggðar inn í slíkan miðhálendis þjóðgarð komi til þess að hann verði stofnaður.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir