Askurinn – Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki

Askurinn – Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki 2019, verður haldin í nóvember og er Matís faglegur umsjónaraðili keppninnar. Matís hefur áður staðið að verðlaunakeppni í matarhandverki árið 2014, þá í samstarfi við Ný norræn matvæli (Ny Nordis Mad), þar sem 110 vörur kepptu í átta matvöruflokkum frá öllum Norðurlöndunum. Að keppninni stendur Matís ohf í samstarfi við Sóknaráætlun Vesturlands, Markaðsstofu Vesturlands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Matarauð Íslands.

Matarhandverk eru unnar matvörur sem framleiddar eru í takmörkuðu mæli úr hráefnum, samkvæmt hefðum eða með einhverri sérstöðu sem tengist landinu eða héraðinu sem varan er framleidd í. Varan þarf að vera framleidd samkvæmt gildandi heilbrigðiskröfum með áherslu á matarhefðir og náttúrulega ferla þar sem mannshöndin og handverkið nýtur sín í öllu ferlinu.

Keppnin felur í sér að framleiðendi skráir og skilar inn vöru í keppnina. Fagaðilar í hverjum flokki taka út og gera faglegt mat á gæðum vörunnar.  Allir keppendur fá afhenta umsögn og gæðamat fyrir þær vörur sem skráðar eru og sendar til keppni. Askurinn; gull, silfur og brons- viðurkenning er veitt fyrir þær vörur sem þykja skara fram úr og er gullverðlaunahafi jafnframt útnefndur Íslandsmeistari í viðkomandi flokki. Verðlaunaafhending fer fram á Matarhátíð á Hvanneyri laugardaginn 23. nóvember, þar sem öllum keppnisvörunum verður einnig stillt upp og þær kynntar.

Keppt er í 6 flokkum:

  • Mjólkurvörur
  • Kjöt
  • Fiskur & sjávarfang
  • Bakstur
  • Ber, ávextir og grænmeti
  • Nýsköpun í matarhandverki

Ef fleiri en fjórar sambærilegar vörur eru skráðar í flokkinn Nýsköpun í matarhandverki, verður búin til sérstakur keppnisflokkur um þann vöruflokk. Skráning í keppnina er í gegnum vef Matís en þar má einnig nálgast keppnisreglur og allar nánari upplýsingar. Skráningu lýkur mánudaginn 4. nóvember og vörum skal skilað inn þriðjudaginn 19. nóvember. Allar frekari upplýsingar og skráningform má nálgast á www.matis.is

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir