Fundurinn var afar vel sóttur, en nálægt 100 manns fylltu sal Amtsbókasafnsins. Ljósm. sá.

Acadian Seaplants kynntu áform sín í Stykkishólmi

Nálægt eitt hundrað manns sóttu íbúafund í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi í gærkvöldi. Þar var til kynningar fyrirhuguðu rannsóknar-, vinnslu og afurðamiðstöð þangs á vegum kanadíska fyrirtækisins Acadian Seaplants. Bæjaryfirvöld eiga nú sem kunnugt er í viðræðum við fyrirtækið um frekari framvindu þeirra mála.

Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri setti fundinn áður en Jean-Paul Deveau, forstjóri Acadian Seaplants, tók til máls. Hann sagði frá sögu Acadian Seaplants, framtíðaráformum þess við Breiðafjörð og fór yfir stöðu mála frá sjónarhóli fyrirtækisins. Einnig hélt tölu vísindamaður á vegum Acadian, sem greindi frá rannsóknum sínum og hlutverki innan fyrirtækisins.

Þá héldu Dr. Karl Gunnarsson frá Hafrannsóknastofnun og Lilja Gunnarsdóttir, doktorsnemi hjá Hafrannsóknastofnun, erindi og sögðu frá rannsóknum sínum á klóþangi við Breiðafjörð og áhrifum þangtekju á lífríkið. Í erindi Karls kom m.a. fram að hann teldi óhætt að nytja um 40 þúsund tonn af klóþangi á ári, sem munu vera um það bil 4% af heildarmagni klóþangs í Breiðafirði. Hafði hann jafnframt orð á að þessi tala væri varfærnislega sett fram frekar en annað. Hann sagði enn fremur frá tveimur aðferðum sem notaðar hafa verið til að áætla magn klóþangs í Breiðafirði. Gera þær báðar ráð fyrir að meira en ein milljón tonna sé af klóþangi í firðinum.

Fram kom að forsvarsmenn Acadian Seaplants áætla að vinna allt að 20 þúsund tonn af þangi á ári, sem er sama magn og Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur forgang að nýtingu á samkvæmt lögum.

Á meðan fundurinn stóð yfir gátu gestir sent inn fyrirspurnir í gegnum síma, sem síðan var varpað upp á skjá og svarað í lok fundar. Auk þess gafst fólki kostur á að rísa úr sætum og bera upp spurningar þannig.

Spurður um störf reiknaði Jean-Paul Deveau með því að starfsemi fyrirtækisins kallaði á um það bil 30 störf; 20 í afurðamiðstöð og tíu vettvangsstörf, eftir að fyrsta áfanga verkefnisins væri náð. Hann kynnti einnig áform fyrirtækisins um staðsetningu miðstöðvarinnar sunnan flugvallarins í Stykkishólmi, innan þess svæðis sem ráðgjafanefnd lagði til. Hefur fyrirtækið hug á því að reisa húsnæði sitt við Kallhamra, fjarri íbúabyggð. Vilja forsvarsmenn Acadian koma þar upp bryggju svo ekki þurfi að flytja þangið með bílum að miðstöðinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Spíttbústaður

Umsjónarmenn sumarbústaðar í Hvalfirði höfðu samband við Lögregluna á Vesturlandi í vikunni sem leið. Bústaðurinn er leigður út til skamms... Lesa meira