Skiluðu tillögum um starfsþróun kennara

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda skilaði á dögunum tillögum til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um framtíðarsýn fyrir starfsþróun kennara hér á landi. Tillögur þessar eru nýmæli þar sem ekki hefur legið fyrir sameiginleg framtíðarsýn á málefni starfsþróunar t.d. milli ólíkra skólastiga og rekstraraðila skóla.

„Starfsþróun getur m.a. falið í sér formlegt nám og endurmenntun kennara, námskeið, rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur og heimsóknir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju kennara og hefur jákvæð áhrif á árangur þeirra í starfi,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Meðal helstu tillagna í skýrslu ráðsins eru:

  • Endurskoðun fjármögnunar: Fjármögnun starfsþróunar kennara og skólastjórnenda verði endurskoðuð með það að markmiði að jafna aðgengi allra kennara og skóla að fjármagni og starfsþróunartækifærum.
  • Ákvæði um starfsþróun í lög: Sett verði í lög ákvæði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla, með áherslu á að starfsþróun sé hluti af starfi þeirra. Ávallt verði hugað að starfsþróun í tengslum við innleiðingu stefnu í menntamálum og breytingar á henni.
  • Áherslur samræmdar skólastefnu: Sveitarfélög, mennta- og menningarmálaráðuneyti og aðrir rekstraraðilar skóla leggi áherslu á að stefna þeirra um starfsþróun verði hluti af skólastefnu hvers leik-, grunn- framhalds- og tónlistarskóla.
  • Menntamálastofnun: Boðið verði upp á tækifæri til starfsþróunar í tengslum við verkefni Menntamálastofnunar og kannanir á hennar vegum. Stofnunin útfæri möguleika til starfsþróunar í samstarfi við háskóla, sveitarfélög og aðra aðila eftir því sem við á.
  • Háskólastigið: Samstarf og ráðgjöf um starfsþróun kennara og skólastjórnenda verði skilgreind sem hluti af starfskyldum háskólakennara sem mennta kennara og skólastjórnendur.
  • Ráðgjöf og stuðningur: Tryggt verði að skólar hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og stuðningi til starfsþróunar fyrir kennara og skólastjórnendur. Við skipulag og útfærslu verði stutt við faglegt samstarf og sérstaklega hugað að tengslum við aðrar menntastofnanir.
Líkar þetta

Fleiri fréttir