Lögð til breyting á hluthafasamkomulagi

Næstkomandi föstudag hefur verið boðað til fundur hluthafa í Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. Á dagskrá fundarins eru breytingar á hluthafasamkomulagi og í kjölfar þess stjórnarkjör samkvæmt því. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns fyrr í haust hefur ríkt óánægja meðal fulltrúa meirihlutans í sveitarstjórn Borgarbyggðar að hafa ekki formann stjórnar menntaskólans, í ljósi þess að sveitarfélagið á um 92% eignarhlut í félaginu. Fjöldi smærri hluthafa í einkahlutafélaginu er 157 talsins og fara þeir með um 8% hlutafjár. Í minnisblaði sem kynnt er á heimasíðu skólans skrifar Kristinn Bjarnason lögmaður um tilurð væntanlegs hluthafasamkomulags: „Samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði um óformlegan fund stærstu hluthafa 19. ágúst sl. er meginmarkmið breytinga sem óskað var tillagna um að koma meiri festu í stjórnarkjör en nú er og tryggja að stjórnarformennska sé í höndum stjórnarmanns sem nýtur stuðnings þeirra sem fara með meirihluta hluthafavalds Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. en fyrir liggur að Borgarbyggð á 91,98% hlutafjár og Loftorka Borgarnesi ehf. 5,59% en hlutir annarra hluthafa eru allir undir einu prósenti.“ Í orðanna hljóðan felst samkvæmt þessu að Hrefna B Jónsdóttir formaður stjórnar MB nýtur ekki trausts meirihluta sveitarstjórnar, en stjórn kaus hana formann í stað Vilhjálms Egilssonar á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar síðasta vor og taldi stjórn sig vera að fylgja samþykktum félagsins. Fyrir fundinum nú á föstudaginn liggur tillaga um að stjórn MB verði framvegis skipuð sex mönnum í stað fimm nú. Falli atkvæði í stjórn jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Starf skólameistara MB var auglýst laust til umsóknar í sumar og sóttu níu um starfið. Búið er að ræða við umsækjendur og meta hæfni þeirra, en ákvörðun um ráðningu er nú í biðstöðu þar sem óskað var eftir fyrrgreindum hluthafafundi í félaginu áður en ráðningarferlinu lauk. „Ný stjórn mun taka við því verkefni og vonandi leysa ráðningu skólameistara með farsælum hætti. Fráfarandi skólameistari lýkur störfum um næstu mánaðamót og því er mikilvægt að ráðningarferli ljúki sem fyrst,“ segir Hrefna B. Jónsdóttir fráfarandi formaður stjórnar MB í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir