Vilhjálmur Birgisson. Ljósm. Skessuhorn/mm

Segir viðskiptabankana ekki skila stýrivaxtalækkunum

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og varaforseti Alþýðusambands Íslands segir það dapurlegt að viðskiptabankarnir þrír hafi ekki viljað skila þeirri miklu stýrivaxtalækkun sem Seðlabankinn hefur hrint í framkvæmd eftir að lífskjarasamningurinn var undirritaður. „Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að ein af aðalforsendum lífskjarasamningsins var að stýrivextir myndu lækka umtalsvert og að sú vaxtalækkun myndi að sjálfsögðu skila sér til íslenskra neytenda, heimila og fyrirtækja,“ skrifar Vilhjálmur á Facebook síðu sína. „En eins og mörgum er kunnugt hefur Seðlabankinn lækkað stýrivextina í þremur aðgerðum um 1,25% eftir undirritun lífskjarasamnings. „Það er alveg morgunljóst að ef fjármálakerfið ætlar sér ekki að skila þessari vaxtalækkun til neytenda nema í algjöru skötulíki, þá mun það kalla á hörð viðbrögð frá verkalýðshreyfingunni, enda var vaxtalækkun ein af aðalforsendum lífskjarasamningsins eins og áður sagði,“ skrifar Vilhjálmur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir