Lýsa vantrausti á skólameistara FVA

Síðastliðinn föstudag var Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra afhentur listi með nöfnum 38 af 46 kennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands þar sem þeir lýsa vantrausti á Ágústu Elínu Ingþórsdóttur skólameistara. Átelja þeir stjórnunarhætti skólameistara og framkomu hennar við undirmenn. Yfirlýsing kennaranna er svohljóðandi: „Undirritaður kennarar við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, FVA, lýsa yfir vantrausti á núverandi skólameistara FVA, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, og beina þeim tilmælum til ráðherra að hún verði ekki endurráðin sem skólameistari skólans.“ Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fól nýverið Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að taka að sér að skipa í stöðu skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands eftir að Lilja D Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði sig frá málinu.

Eins og nýlega var greint frá í Skessuhorni hefur Ágústa Elín höfðað mál á hendur íslenska ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar menntamálaráðherra að auglýsa starf skólameistara laust til umsóknar frá og með næstu áramótum. Skipunartími skólameistara FVA rennur út um næstu áramót og ákvað Lilja D Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í sumar að auglýsa starfið laust til umsóknar. Í kjölfar auglýsingar sóttur fjórir um starfið, þar á meðal núverandi skólameistari. Í hópi þriggja annarra umsækjenda eru tveir núverandi kennarar við skólann. Sökum vanhæfis rita þeir ekki undir vantraustsyfirlýsinguna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir