Frá æfingum björgunarsveitarfólks. Ljósm. snb.is

Samæfing björgunarsveita verður á Snæfellsnesi á morgun

Á morgun, laugardaginn 5. október verður mikið um að vera í Snæfellsbæ þegar landsæfing Slysavarnafélagsins Landsbjargar fer þar fram. Undirbúningur að æfingunni og framkvæmd hennar er í höndum hóps á svæði fimm hjá Landsbjörgu og hafa fulltrúar björgunarsveitanna á Snæfellsnesi og í Dölum borið hita og þunga verkefnisins. Gert er ráð fyrir um 300 þátttakendum víðs vegar að af landinu auk þess sem nokkrir björgunarsveitarmenn frá Færeyjum og Noregi hafa sýnt áhuga fyrir þátttöku. Æfingasvæðið verður afmarkað frá Fróðárheiði og út fyrir Saxhól og verða æfingar með fjölbreyttu sniði. Verkefni sem björgunarsveitafólk leysir verða 60 – 70 talsins og má þar nefna fjalla- og rústabjörgun, leitarverkefni, fyrstu hjálp auk báta- og tækjaverkefna. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með æfingunni, en verða að virða æfinga- og athafnasvæði þátttakenda. Æfingin hefst kl. 9 í fyrramálið og lýkur með sameiginlegum kvöldverði í Félagsheimilinu Klifi sem slysavarnadeildir á svæði fimm sjá um.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir