Neysluvatn Grábrókarveitu ekki talið e-coli smitað

Ekki er lengur þörf á að neytendur vatns úr vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni í Norðurárdal sjóði vatnið. „Endurtekin sýnataka leiddi í ljós að ekki er e-coli mengun í neysluvatninu. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands telur því ekki lengur þörf á að sjóða vatnið,“ segir í tilkynningu.

Veitusvæðið sem vatnsbólið í Grábrókarhrauni þjónar nær til Borgarness, Bifrastar og Varmalands auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Þá segir í tilkynningu að Veitur muni grípa til aðgerða vegna þessa máls. Tekin hafi verið ákvörðun um að setja lýsingu á allt vatn er fer frá Grábrókarveitu. Gert er ráð fyrir að hún komi upp á næstu vikum. Lýsing gerir örverur óvirkar og bætir þannig gæði vatnsins en hefur að öðru leyti engin áhrif. „Með henni eru líkur á að svona atburður endurtaki sig þverrandi,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir