
Nemendur settu sínar eigin símareglur
Skólafólk, foreldrar og jafnvel einnig nemendur hafa áhyggjur af að aukin símanotkun dragi úr hæfni til að meðtaka það sem kennt er í skólum landsins. Þeir trufli t.d. einbeitingu og vinnufrið, geti stuðlað að einelti og dragi því úr árangri. Þar sem um þverbak hefur keyrt hefur jafnvel verið brugðið á það ráð að banna notkun farsíma á skólatíma. Í Grunnskólanum í Borgarnesi þurfti að skerpa á reglunum. Á unglingastigi skólans var í síðustu viku samþykkt að nemendur tækju sjálfir þátt í að semja reglur um farsímanotkun.
Inga Margrét Skúladóttir og Birna Hlín Guðjónsdóttir, umsjónarkennarar á unglingastigi, sögðu í samtali við Skessuhorn að samið hafi verið ungmennin um hvernig standa skyldi að því að setja reglurnar. „Ákveðið var að blása til þjóðfundar. Fimm til sex krakkar voru í alls 18 hópum og skiluðu allir hópar 6-8 tillögum. Svo voru hóparnir stækkaðir og þeim fækkað og að endingu voru fjórir hópar sem skiluðu alls átta reglum sem samþykkt var að tækju þegar gildi. Engin regla fór í gegn sem ekki var samþykkt af heildinni. Þannig eru allir sáttir og við förum inn í næstu skólaviku með nýjar reglur og skýran ramma um farsímnotkun nemenda og okkar starfsmanna einnig,“ sögðu þær Inga Margrét og Birna Hlín.
Farsímareglur GBN eru eftirfarandi:
- Það er bannað að vera með síma í tíma nema með leyfi kennara.
- Ef einhver er með síma án leyfis og síminn er tekinn, fær hann símann afhentan í lok tímans. Ef hann er tekinn tvisvar sama daginn þá fær hann símann í lok dags.
- Það má vera með síma í frímínútum og matartímum, en ekki í matsalnum.
- Ef nemandi á von á áríðandi símtali fær viðkomandi leyfi hjá kennara til að svara.
- Það má hlusta á tónlist í tímum með leyfi kennara og þá má vera með heyrnartól.
- Það er bannað að taka myndir/myndbönd af öðrum án leyfis.
- Það er bannað að fikta í annarra manna tækjum.
- Starfsfólk skólans á að fylgja sömu reglum.
Reglur samdar af unglingunum í samstarfi við umsjónarkennara 24. september 2019.