Pallborð með gestum þingsins. F.v. Júníana Björg Óttarsdóttir og Björn H. Hilmarsson fundarstjórar, Aldís Hafsteinsdóttir formaður SÍS, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis. Ljósm. kgk.

Umhverfismál sérstakt þema á haustþingi SSV

Haustþing Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi var haldið í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík síðastiðinn miðvikudag. Þar voru saman komnir fulltrúar sveitarfélaganna í landshlutanum, ásamt starfsfólki SSV, til að ræða málefni landshlutans. Blaðamaður Skessuhorns var á staðnum og verður hér stiklað á mjög stóru um það sem fram fór á þinginu.

Fyrir hádegi var fjárhagsáætlun SSV fyrir næsta ár kynnt, sem og starfsáætlun. Það var Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri SSV, sem annaðist kynningarnar.

Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður Vesturlandsstofu, fór yfir starfsáætlun stofunnar og Páll kynnti tillögu að Sóknaráætlun Vesturlands fyrir árin 2020-2024. Meginmarkmiðum hennar er skipt upp í fimm flokka; velferð, umhverfi, samgöngur, atvinnu og nýsköpun og menningu.

Gestir þingsins að þessu sinni voru þau Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fluttu þau ávörp eftir hádegið og að þeim loknum var opnað fyrir fyrirspurnir.

Umhverfismál voru sérstakt þema haustþings að þessu sinni og voru sérstakar umræður um málaflokkinn undir; „Að hugsa á heimsvísu og framkvæma heima fyrir – viðfangsefni og tækifæri sveitarfélaganna á Vesturlandi í umhverfismálum“. Sigurborg Hannesdóttir stjórnaði umræðum en frummælendur voru Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness, Kristinn Jónasson, formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands, Stefán Gíslason umhverfisfræðingur og Sara Rós Hulda Róbertsdóttir, nemi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Þingfulltrúum var skipt upp í litla hópa og hvert borð skilaði síðan spurningum til frummælenda.

 

Nánari umfjöllun um haustþing SSV er að finna í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir