Nálgunarbann gegn ólögráða pilti

Landsréttur staðfesti 1. október sl. úrskurð Héraðsdóms Vesturlands frá 23. september, sem hafði dæmt mann í þriggja mánaða nálgunarbann gegn ólögráða pilti. Er manninum óheimilt að koma að heimili piltsins, skóla og vinnustað, auk þess sem honum er bannað að nálgast piltinn eða veita eftirför, hafa samband við piltinn í síma, senda orðsendingar eða bréf, hafa samskipti við hann á samskiptamiðlum og setja sig í samband við hann á nokkkurn annan hátt.

Í dómnum kemur fram að maðurinn sé grunaður um að hafa lagt hendur á piltinn, hóta honum ofbeldi og reyna að hafa áhrif á hvað hann segði í viðtölum hjá barnaverndaryfirvöldum. Þá kemur einnig fram að lögregla hafi í eitt sinn stöðvað manninn þar sem hann reyndi að þvinga piltinn inn í bíl hjá sér.

Foreldrar piltsins óskuðu eftir nálgunarbanni og barnaverndarnefnd sömuleiðis. Héraðsdómur dæmdi manninn í nálgunarbann og nú hefur Landsréttur staðfest þann úrskurð.

Maðurinn dvaldi um skeið á lögheimili piltsins og kynntist honum. Eftir það héldu pilturinn og bróðir hans mikið til hjá manninum um skeið. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að pilturinn hafi lýst að í fyrstu hafi honum liðið vel í samskiptum við manninn, en það hafi breyst að undanförnu. Hann hafi orðið fyrir skömmum og aðkasti frá manninum, meðal annars um að pilturinn ætti að segja tiltekna hluti við barnaverndaryfirvöld. Þá hafi maðurinn slegið hann í andlitið og ítrekað hótað piltinum barsmíðum. Pilturinn hafi reynt að loka á öll samskipti við manninn en hann hafi ekki látið sér segjast. Lögregla hefur fjórum sinnum haft afskipti af manninum vegna þessa, þar af einu sinni þegar hann reyndi að þvinga piltinn upp í bíl til sín.

Líkar þetta

Fleiri fréttir