Runólfur SH 135 í innsiglingunni við Grundarfjörð. Ljósm. tfk.

Runólfur SH 135 kemur til heimahafnar

Útgerð Guðmundar Runólfssonar hf festu kaup á nýju skipi fyrr á árinu og í dag, þriðjudaginn 1. október kom það loks til heimahafnar. Það var blíðskaparveður er Runólfur SH 135 sigldi inn fjörðinn sem skartaði sínu fegursta. „Runólfur SH 135 er fjórða skipið með þessu nafni í eigu fjölskyldunnar,“ sagði Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri í stuttu spjalli við Skessuhorn. „Sá fyrsti var smíðaður árið 1947 í Neskaupsstað en hann var 39 tonna trébátur, Annar Runólfur var smíðaður í Risör í Noregi árið 1960 og var 120 tonna bátur. Þriðji Runólfur var svo smíðaður í Garðabæ 1975 og var 312 tonna skuttogari,“ rifjar Smári upp. Nú er sá fjórði kominn til heimahafnar en hann var smíðaður í Póllandi 2007 og mun hann leysa Helga SH af hólmi en sá bátur er kominn á söluskrá.  Nýja skipið er töluvert öflugra en Helgi SH í alla staði og er sambærilegt Hring SH 153 en Guðmundur Runólfsson hf gerir einnig út Hring SH 153 og munu gera það áfram. „Runólfur og Hringur eiga að afla nýrri fiskvinnslu fyrirtækisins hráefnis en bæði eru þau öflug togskip sem ættu að fara nokkuð langt með það“ bætir Smári við að endingu.

Runólfur SH 135 er þriðja nýja skipið sem kemur til Grundarfjarðar á innan við viku en síðasta laugardag komu Farsæll SH 30 og Sigurborg SH 12 til heimahafnar í fyrsta skipti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir