Kvartlaus október í Borgarbyggð

Borgarbyggð – heilsueflandi samfélag hefur sett fram áskorun á Facebook síðu sinni undir yfirskriftinni „Kvartlaus október“. Með áskoruninni eru íbúar hvattir til að hreinsa hugann af ómeðvitaðri neikvæðni með því að kvarta ekki í 31 dag samfleytt. Reglurnar snúast um að kvarta ekki, og á það við um allar neikvæðar athugasemdir í kvörtunartón eða baktal og að gagnrýna ekki á neikvæðan hátt.

Ef fólk hefur eitthvað sem þarf að koma á framfæri skal það gert á kurteisislegan hátt við þá manneskju sem málið varðar. Þá er því útlistað í áskorununni að það flokkist ekki sem baktal þegar talað er um aðra á jákvæðan hátt, eitthvað sem viðkomandi myndi ekki hika við að segja beint við þann sem talað er um. „Lítum tilveruna jákvæðum augum í október. Sjáðu það góða í upplifunum. Gríptu þig þegar þú ert að hugsa um slæmu eiginleikana við upplifunina eða þú ert að kvarta yfir tilverunni eða dæma annað fólk. Upplifanir eru nefnilega ekki bara góðar eða slæmar, þær eru yfrleitt sambland af þessu tvennu. Það er alltaf eitthvað jákvætt við það sem þú ert að upplifa. Snúðu raunveruleikanum þér í hag með að beina athyglinni þinni á það góða hverju sinni. Sýndu þakklæti. Með því að líta jákvæðum augum á tilveruna býrð þú til betri raunveruleika, sem nærir sjálfan þig og aðra í kringum þig,“ segir í áskoruninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir