Úr vinnslusal fyrirtækisins á Akranesi. Ljósm. úr safni Skessuhorns/kgk.

Sextíu starfsmönnum Ísfisks á Akranesi sagt upp

Frá því er greint á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness fyrr í dag að upp undir 60 starfsmönnum fiskvinnslunnar Ísfisks á Akranesi hafi verið sagt upp störfum. Haldinn var fundur með starfsfólki og fulltrúum VLFA í dag. „Á þessum fundi þurfti fyrirtækið að tilkynna að öllum starfsmönnum væri sagt upp störfum frá og með mánaðamótum, en um er að ræða uppundir 60 starfsmenn,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA. Hann segir að fram hafi komið í máli forsvarsmanna Ísfisks að allar uppsagnir séu gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi. „Það er óhægt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starfsemi á Akranesi árið 2017,“ skrifar Vilhjálmur.

Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu á Akranesi haustið 2017 og flutti starfsemi sína þangað frá Kársnesi í Kópavogi á síðasta ári. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á ýsu og sölu á mörkuðum erlendis, en hráefni til vinnslunnar er að stærstum hluta keypt á markaði. „Það er lítið annað að gera, en að vona að forsvarsmönnum Ísfisks takist á næstu dögum og vikum að endurfjármagna sig, þannig að ekki komi til þessara uppsagna, en það er ljóst að lítið annað er hægt að gera í stöðunni núna, en að vona það besta, en búa sig undir það versta,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir