Mikill vöxtur í fiskeldi

Fiskeldi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og verði vöxtur á næstu árum, einkum í laxeldi, jafnmikill og útlit er fyrir mun hann hafa teljandi áhrif í þjóðhagslegu samhengi. Það sem af er ári er vöxtur í útflutningsverðmæti milli ára um 60%. Útflutningsverðmæti fiskeldis verður líklega hátt í 20 milljarðar króna í ár eða sem nemur ríflega 1% af heildarútflutningi. Á þessu ári hafa samanlagðar framleiðsluheimildir í fiskeldi nær tvöfaldast og eru nú um 85 þúsund tonn á ári miðað við útgefin starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Það tekur rekstraraðila um tvö ár að komast í fulla framleiðslugetu. Mestallt fiskeldi hér á landi er annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Austfjörðum og skiptist tiltölulega jafnt milli þessara tveggja landsvæða.

„Útlit er fyrir að fiskeldi tvöfaldist á næstu tveimur árum. Útflutningsverðmæti fiskeldis gæti orðið um 40 milljarðar króna árið 2021 eða sem nemur hátt í 3% af heildarútflutningi. Líklegt er að mikill vöxtur haldi áfram í einhver ár eftir 2021,“ segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir