Hrútadagur framundan á Raufarhöfn

Hrútadagur verður haldinn í Faxahöllinni á Raufarhöfn um komandi helgi, nú í fjórtánda sinn. Þá verður þessi fornfrægi síldarbær enn á ný miðja alheimsins. Margur kemur kannski til með að spyrja sig, hversvegna Raufarhöfn? En einföld og gild skýring er á því. Raufarhöfn er miðsvæðis á milli Þistilfjarðar og Öxafjarðar sem er hreint og riðulaust svæði. Geta bændur hvaðan sem er af landinu komið hingað og keypt sér kynbótahrút til að bæta fjárstofn sinn. En að sjálfsögðu þurfa menn að hafa tilskilin kaupleyfi.

Hrútadagurinn er endapunktur á vikulangri hátíð sem ber heitið Menningar- og hrútadagar á Raufarhöfn 2019. Hófst hátíðin síðastliðinn föstudag, 27. september, og lýkur sunnudaginn 6. október á göngu með Ferðafélaginu Norðurslóð.

„Ég hef staðið vaktina frá 2014 og alltaf er það jafn gaman. Dagskráin er mjög fjölbreytileg. Hápunktur hátíðarinnar er hin árlega hrútasýning og þar verða veitt verðlaun fyrir besta skrokkgæðahrútinn (Búvíshrútinn). Fær eigandi hans í hendur farandbikar sem gefinn er af Búvís. Sú nýung verður núna að svalasti hrúturinn verður valinn eða Emmessíshrúturinn og veitt verða verðlaun fyrir hann. Fyrir börnin verður haldin fegurðarsamkeppni gimbra, sjón er sögu ríkari. Þá verður farið í ýmsa leiki og „almennan fíflagang“ eins og segir í dagskrá hátíðarinnar.  Einnig gefst fólki kostur á að kaupa ýmsan varning í sölubásum.  Jón Þór Kristjánsson verður kynnir og heldur utan um dagskrána enda alvanur sprelli og gríni. Rúsínan í pylsuendanum í Faxahöllinni verður svo sala á hrútum sem endað gæti með hrútauppboði,“ segir Ingibjörg Hann Sigurðardóttir framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Hrútadeginum lýkur að vanda með veglegu hrútadagsballi í Hnitbjörgum. Hefst dagskráin á skemmtikvöldi sem byrjar klukkan 21.00. Karlakór Eyjafjarðar er 40 manna kór undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar en þeir eru alvanir sprelli og gríni og stefnir því í gott kvöld. Undirleikari er Valmar Väljaots.  Á ballinu sjálfu mun hljómsveitin Hamrabandið frá Akureyri troða upp og treysti ég því að þeir muni algjörlega standa undir nafni og skemmta fólki langt fram á nótt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir