Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit.

Trúir að fólki fjölgi aftur í Hvalfjarðarsveit

Í byrjun mánaðarins greindi Skessuhorn frá samantekt Þjóðskrár um íbúafjölda eftir sveitarfélögum. Samkvæmt þeim hefur næstmest fækkun íbúa í einstökum sveitarfélögum frá 1. desember til 1. september verið í Hvalfjarðarsveit en þar fækkaði um 33 íbúa, eða 5,1% á fyrrgreindu níu mánaða tímabili. Nú búa 617 í sveitarfélaginu. Að sögn Lindu Bjarkar Pálsdóttur sveitarstjóra er þessi fækkun vissulega tekin alvarlega innan sveitarfélagsins en sagði jafnframt að svona sveiflur í íbúafjölda hafi sést áður í sveitarfélaginu.

„Það munar mikið um hvern íbúa í ekki stærra sveitarfélagi svo að ef við missum barnmargar fjölskyldur frá okkur er það fljótt að telja. Það er aldrei gott að það fækki íbúum og auðvitað viljum við að þeim fjölgi sem mest,“ segir Linda í samtali við Skessuhorn. „Við erum meðvituð um þetta og erum að reyna að finna út hvað sé hægt að gera til að laða fleira fólk til okkar, sérstaklega barnafjölskyldur. Menningar- og markaðsnefnd er að vinna í því sem mætti kalla markaðs- og kynningarátak og vonandi sjáum við fjölgun innan tíðar,“ bætir hún við. Þá segir Linda húsnæði í sveitarfélaginu ekki standa autt heldur sé frekar skortur á húsnæði. „Eignir í sveitarfélaginu sem fara í sölu seljast mjög hratt svo það virðist vera eftirspurn. Í Krosslandi er búið að selja nánast allar íbúðalóðirnar og er uppbygging þar þegar hafin og hús farin að rísa að nýju eftir langt hlé svo í því hverfi ætti íbúum að fara að fjölga vonandi mjög fljótlega. Í Melahverfi er einnig er búið að reisa tvö ný parhús sem koma vonandi inn á markaðinn á næstu mánuðum. Jafnframt er búið að úthluta fjölbýlishúsalóð í hverfinu og vonandi munu framkvæmdir þar hefjast fyrr en síðar,“ segir Linda. Þá er nóg til af lausum lóðum í Melahverfi. „Við myndum vilja sjá meiri uppbyggingu í Melahverfinu en hverfið byrjaði að byggjast upp þegar Elkem tók til starfa fyrir 40 árum og svo fjölgaði húsum í hverfinu þegar Norðurál kom fyrir rúmum 20 árum, en ég hefði viljað sjá fleiri sem vinna á Grundartangasvæðinu setjast að hér. Þetta er frábær staðsetning, mikil veðursæld og hverfið er miðsvæðis og stutt í alla þjónustu. Síðast en ekki síst er góð þjónusta í bæði leik- og grunnskólanum svo hér er sérstaklega gott að vera með börn,“ segir Linda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir