Opnunartími Kjörbúðar í Búðardal styttur

Opnunartími Kjörbúðarinnar í Búðardal hefur verið styttur. Miði á hurð beið viðskiptavina verslunarinnar í byrjun síðustu viku þar sem greint var frá styttingu opnunartímans. Þar kom fram að frá og með 16. september er opið frá kl. 9:00 til 18:00 mánudag til fimmtudags, en frá 9:00 til 19:00 á föstudögum eins og áður var alla virka daga. Á laugardögum verður óbreyttur opnunartími frá 10:00 til 18:00 en á sunnudögum frá 12:00 til 17:00, en áður var opið til 18:00 á sunnudögum. Samtals styttist opnunartími verslunarinnar því um fimm klukkustundir á viku; fjórar klukkustundir á virkum dögum og eina um helgar.

„Ástæðurnar eru þær að við finnum fyrir verulegum samdrætti í ferðaþjónustu og erum að bregðast við því þegar við styttum opnunartímann með þessum hætti. Auk þess sem kostnaður hefur aukist talsvert í rekstri Kjörbúðanna, rétt eins og hjá öðrum fyrirtækjum undanfarin misseri. Með því að grípa til styttingar opnunartíma á að koma í veg fyrir að sá kostnaður færist út í vöruverð,“ segir Heiðar Róbert í samtali við Skessuhorn. „Við metum það svo að viðskiptavinir okkar kunni að meta slíkar breytingar. Sömuleiðis gerir umrædd hagræðing okkur kleift að halda fjölda starfsfólks í verslunum óbreyttum. Eins styðja þessar aðgerir við stefnu fyrirtækisins um að gera Kjörbúðina að sífellt fjölskylduvænni vinnustað og við finnum ekki fyrir öðru en ánægju meðal okkar starfsfólks að verslunum loki nú fyrr á kvöldin,“ segir Róbert.

Líkar þetta

Fleiri fréttir