Margrét Katrín kaupfélagsstjóri klippti á borða og bauð gesti velkomna við opnun staðarins klukkan 11 í gær. Ljósm. Skessuhorn/mm

Nafn veitingastaðar vefst fyrir þeim sem ekki eru enskumælandi

Eitthvað er um að nafnið á veitingastaðnum Food Station í Borgarnesi vefjist fyrir fólki, einkum því sem hefur takmarkaða enskukunnáttu. Aðspurð segir Margrét Katrín Guðnadóttir kaupfélgsstjóri að nafnið kunni að hljóma framandi í fyrstu, en sé engu að síður niðurstaða hugmyndavinnu sem fram fór. „Við ætlum á Food Station að leggja áherslu á hollan og fljótlegan valkost við veginn sem höfðað getur bæði til heimafólks og ferðafólks sem á leið hér í gegnum Borgarnes,“ útskýrir hún. „Lögð verður áhersla á hollan skyndimat, en auk þess mat úr héraði. Við verðum með salatbar af matseðli, boost drykki, íslenska kjötsúpu og almennt eins mikið hráefni úr héraði og kostur er. Þá verðum við með smurt brauð, samlokur og nýbakað á staðnum. Í salatbarnum geta gestir valið úr mörgum réttum af matseðli. Hér verður fyrirkomulagið þannig að þú ferð í röð, pantar og rétturinn er settur saman á svipstundu og afgreiddur á meðan þú bíður. Viðskiptavinir þurfa ekki að taka númer eða slíkt, hér verður allt í sjálfsafgreiðslu, líkt og margir þekkja frá veitingastað IKEA. Eftir að viðskiptavinir hafa valið sér mat, drykki eða aðra vöru í versluninni fara þeir á kassa og greiða. Með þessu móti ætlum við að leggja áherslu á snögga þjónustu og þannig má segja að tilvísunin sé í nafngift staðarins, ekki ósvipað og á lestarstöð þar sem allt gengur hratt fyrir sig. Auk þess munum við bjóða upp á rétt dagsins í hádeginu og ætlum okkur að höfða til þeirra fjölmörgu sem hér starfa og þurfa að fá hollan og góðan mat í hádeginu.“

Nánar er sagt frá Food Station í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir