Smiðirnir Þorbergur E. Þórðarson og Egill S. Gíslason uppi á þaki á heimili þess fyrrnefnda á Akranesi. Ljósm. Skessuhorn/kgk.

Meistari og lærlingur saman við smíðar

Í blíðviðrinu í gær mátti sjá smiðina Þorberg E. Þórðarson og Egil S. Gíslason vinna við að skipta um járn á þakinu á heimili þess fyrrnefnda á Akranesi. Væri það svo sem sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Egill lærði til smiðs hjá Þorbergi fyrir réttum 45 árum síðan, en Þorbergur rak um árabil Trésmiðju Sigurjóns og Þorbergs ásamt Sigurjóni Hannessyni. Þarna voru þeir því sameinaðir á nýjan leik við smíðarnar, lærlingurinn og meistarinn, á fallegum septemberdegi. „Ég byrjaði að læra þegar ég var 18 ára. Það eru komin 45 ár síðan. Þetta hefur verið 1974,“ segir Egill. „Fína sumarið ´74, besta sumar sem hefur komið þangað til síðasta sumar kom,“ segir Þorbergur. „Já, það var sól allt sumarið,“ rifjar Egill upp. „Ég var með tíu svona gutta með mér,“ segir Þorbergur og bendir á Egil; „og það var sól upp á hvern einasta dag í tvo mánuði þar sem við vorum að byggja sumarbústaði uppi í Svignaskarði,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við meistarann og lærlinginn á þakinu, í Skessuhorni sem kom út í dag. 

Líkar þetta

Fleiri fréttir