Brynjar Smári Rúnarsson forstöðumaður Þjónustuupplifunar hjá Íslandspósti.

Ráðinn til að bæta þjónustuupplifun viðskiptavina

Brynjar Smári Rúnarsson hefur verið ráðinn í starf forstöðumanns Þjónustuupplifunar hjá Íslandspósti. „Um er að ræða nýja stöðu innan fyrirtækisins en eitt helsta markmið Póstsins er nú að bæta þjónustu við viðskiptavini. Í starfinu mun hann nálgast öll verkefni út frá sjónarmiði viðskiptavina og tryggja að rödd þeirra heyrist inn í fyrirtækið við allar ákvarðanir. Hin nýja deild mun heyra beint undir forstjóra og Brynjar kemur inn í teymi lykilstjórnenda Póstsins,“ segir í tilkynningu. Brynjar hefur undanfarin sex ár starfað sem forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins og þar áður sem markaðssérfræðingur hjá fyrirtækinu. Hann er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

„Pósturinn hefur ekki verið nógu kvikur í að þróa sig að þörfum nútíma markaðar og hlusta á þarfir viðskiptavina. Þessari þróun ætlum við að snúa við en með þessari skipulagsbreytingu ætlum við að tryggja að rödd viðskiptavina okkar heyrist í öllu því sem við gerum í framtíðinni. Við vitum að við eigum mikið inni og við ætlum okkur að standa okkur miklu betur enda hafa allir starfsmenn Póstsins metnað og getu til þess að veita framúrskarandi þjónustu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir