
Landinn á sólarhrings flakki um landið
Frá því klukkan 20:15 í gærkveldi hefur Ríkissjónvarpið verið með beina útsendingu á sólarhrings löngum hátíðarþætti Landans. Fimm teymi dagskrárgerðarfólks eru á ferð víðsvegar um landið og er sent út beint frá völdum stöðum. Komið er við hjá fólki í leik og starfi. Hér á Vesturlandi kom dagskrárgerðarfólk í gærkvöldi t.d. við á Hellissandi, í Ólafsvík, Stykkishólmi, Lundarreykjadal, Borgarnesi, Akranesi og Reykhólum svo fáein dæmi séu tekin. Efnistök voru jafn fjölbreytt og þau voru mörg og því hægt að segja að þátturinn endurspegli lífið í landinu.
Þessi óvanalega þáttagerð er í tilefni þess að þetta er 300. þáttur Landans. Dagskrárgerðarfólkið heldur áfram í dag sem leið liggur og sendir út í stöðugri útsendingu, en þættinum lýkur í kvöld, á sama tíma og hann hófst.