
Jarðskrið á Skarðsstrandarvegi
Aurskriða lokaði veginum yst á Skarðsströnd á fimmtudag. Skriðan féll undir Melahlíð, milli Ballarár og Klofnings. „Það er ofboðslegt vatnsveður búið að vera hérna, allar ár alveg kolmórauðar við alla bakka,“ sagði Trausti Bjarnason, bóndi á Á, í samtali við Skessuhorn. Hann var á ferðinni þennan dag og kvaðst einnig hafa séð spýju úr hlíðinni fyrir ofan Tjaldanes í Saurbæ.
Skarðsstrandarvegur virðist hafa orðið fyrir nokkrum skemmdum undir Melahlíðinni vegna vatnaveðursins fyrir helgi. Verulegt jarðskrið mátti merkja á veginum á sunnudaginn, þegar meðfylgjandi mynd var tekin af sprungu í vegarkantinum.